Þessi sem var skrifuð hér og þar viku átta..

Jæja þá. Nú er ég búin að vera heima á fróni í næstum því viku og ekkert búin að einu sinni horfa í áttina að þessu bloggi. Letin fylgir nú ávalt heimkomunni ..allavegana hjá mér. En ég ætla nú samt að klára þessa ferð hér í bloggheimum og skulum við þess vegna kíkja í viku átta, á meðan ég reyni ennþá að venjast því að geta notað íslenska stafi.

----------------------

Á föstudeginum fórum við ekki í The Slums því að það var miðannarfrí í öllum skólunum þannig að allir fóru í BOC í staðinn til að hjálpa að mála. Við komumst langt með að klára PP3 og kláruðum að teikna allt sem við þurftum að koma fyrir. Um hádegi vorum við sótt og okkur var skutlað í Village Market. Við byrjuðum á því að fá okkur að borða, pizzu, og við gáfum Robert kortið sem ég hafði búið til kvöldið áður og allir voru búnir að skrifa undir. Við röltum svo um Masai markaðinn og ég keypti, eins og fyrri daginn, allt og mikið af dóti sem ég á örugglega aldrei eftir að nota en náði samt að sannfæra sjálfa mig um að ég gæti ekki lifað án. Við keyptum einar tuttugu töskur allar saman og ég var fengin til að prútta verðið niður vegna prúttsýki minnar sem ég hafði safnað upp síðustu sjö vikurnar og fannst ég standa mig frekar vel að fá þær á 335 kr. stykkið. Við tókum svo snögga Nakumattferð og ég keypti mér nýjann usb-lykil vegna tveggja troðfullra minniskorta í myndavélinni minni. Við fundum svo Benard og rútuna okkar og fórum aftur heim í Bracken. Ég kvaddi Robert sem fór um sex leytið og fór aðeins á netið áður en ég fór í mat. Um kvöldið sorteruðum við myndir, spjölluðum, lásum, skrifuðum og grilluðum sykurpúða og súkkulaði á kertum.

Á laugardeginum vöknuðum við Marloes um kl.átta og vorum komnar fyrir utan kl.níu til að fara í The Angels Center sem er miðstöð fyrir nýfædd börn sem höfðu verið yfirgefin við fæðingu, á meðan allir hinir, mínus Sam og Nicola, fóru í The Nairobi Day Trip. Þar héldum við á og knúsuðum í klessu sex lítil börn á aldrinum fimm til tólf mánaða. Við gáfum þeim að borða og vöskuðum upp og þrifum baðherbergið á meðan þau sváfu. Áður en Benson kom og sótti okkur fórum við í smá göngutúr með Carol og hún sýndi okkur nágrennið og spurði okkur um allt milli himins og jarðar varðandi hvðan við komum. Benson kom svo og sótti okkur og skildi okkur eftir í Limuru þar sem við hittum Nicolu og Sam sem höfðu tekið matatu og hittu okkur við mollið. Við fórum og prentuðum út nokkrar myndir og röltum svo að markaðnum. Stelpurnar fundu nokkrar ódýrar lessos og við fundum ofna tösku sem við ætluðum að gefa teacher Margaret daginn eftir. Afríkaninn ég gekk að sjálfsögðu með töskuna á bakinu með veskinu mínu í það sem eftir var af þessari bæjarferð. Við leituðum að fínu pússi fyrir næstu helgi því þá ætluðum við að mála bæinn rauðann. Við fórum svo í súpermarkaðinn og keyptum smá gjöf handa teacher Margaret og við Marloes keyptum okkur sitthvorn poppkornpokann fyrir 15 krónur. Við tókum svo matatu aftur til Bracken og löbbuðum upp. Við sátumst aðeins út í sólina og ég lærði fullt af breskum orðum yfir að pissa, kúka og vera fullur. Basically allt sem ég þarf að kunna ef ég fer einhvetíman til Englands. Við fórum svo í mat. Um kvöldið áttaði ég mig á því að ég átti ennþá afrískt súkkulaði eftir í ísskápnum sem ég hafði keypt nokkrum vikum fyrr og hafði ætlað að gefa íslensku vinum mínum á afmælinu mínu, en þar sem ég var búin að breyta komutímanum heim og afmælið mitt var búið ákvað ég að opna súkkulaðið og breyta partíinu okkar í súkkulaðipartí. Við sátum bara og spjölluðum og ég lærði muninn á milli caramel, fudge og toffee. Við Nicola og Sam sátum þrjár eftir í enda kvöldsins og reyndum að hafa stjórn á sillytime og fundum ágætt Bumping and grinding tutorial myndband á Youtube og æfðum okkur fyrir night out kvöldið okkar komandi laugardag.

Daginn eftir vöknuðum við snemma og vorum komin fyrir utan kl. átta. Við skutluðum Alan og Monu í Angels og kvöddum þau því við myndum ekki sjá þau aftur, því þeirra dvöl með African Impact var lokið. Okkur Nicolu, Marloes, Sam, Megan og Gillian var svo skutlað í kirkjuna hennar teacher Margaret sem er rétt hjá Mukeu-skólanum sem við fundum á endanum þegar við rákumst á Margaret og pikkuðum hana upp með okkur. Við þurftum að bíða aðeins fyrir utan og fengum svona líka flott tan eftir þá bið, og messan byrjaði svo um hálf ellefu. Margir komu upp að okkur og heilsuðu okkur og við þurftum að kynna okkur fyrir söfnuðinum því það er ekki á hverjum degi sem þau fá sex glæsilegar, hálf afrískar, hálf hvítar ungar konur með afrískar lessos utan um sig. Eftir tveggja tíma messuna sem við skildum hvorki upp né niður í en var mjög áhugaverð og við nutum okkar vel, fórum við með teacher Margaret heim til hennar þar sem þessi glæsilega afríska veisla beið eftir okkur upp á kjúkling, mukimo, kachumbari, hrísgrjón, chapati og hin ýmsu salöt. Pastor Samuel sem er að læra guðfræði hafði komið með okkur frá kirkjunni og borðaði með okkur. Hann var mjög áhugasamur um heimalönd okkar og þráði ekkert heitar en að vera vinur okkar á facebook og var sá fyrsti sem við höfum hitt í Kenya sem talaði með svona miklum áhuga um facebook. Eftir að við vorum búnar að troða í okkur eins miklum mat og við gátum, fengum við ávexti og chai í eftirrétt. Stelpurnar voru ekki eins hrifnar af chai og ég og endaði ég þess vegna á því að drekka þrjá bolla. Eftir tedrykkju og spjall sýndi Margaret okkur um lóðina og búgarðinn og við tókum myndir og lofuðum Pastor Samuel að tagga hann á facebook. Við héldum svo aftur heim í Bracken með Benson og vorum komin þangað um hálf fimm. Ég skipti um föt, úr fína kjólnum mínum og lessoinni í stuttbuxur og bol og fór niður í The Running Trails og labbaði 2,5 km leiðina. Ég settist úrvinda niður á bekkinn og hvíldi mig og labbaði leiðina svo aftur og fór svo í mat. Um kvöldið sátum við bara inni í stofu og spjölluðum og biðum eftir nýju stelpunni sem átti að koma um kvöldið. Við Nicola og Sam sátum eftir einar eins og fyrri daginn og tókum á móti Mary-Ann frá Boston, Massachusets og Eric og Sammy sem komu með hana um ellefu leytið. Við spjölluðum aðeins við hana og fórum svo að sofa.

Daginn eftir byrjuðum við vikuna eins og venjulega og fórum í verkefnin okkar. Í BOC máluðum við og máluðum og tókum svo á móti Mary-Ann og Reineku frá Hollandi sem hafði komið um morguninn og myndu vera í BOC næstu tvær vikurnar og fórum með þeim í smá sýnisferð um BOC og nýja húsið. Þegar við komum aftur upp í Bracken fórum við Nicola beint inn á skrifstofu því við áttum dansdeit við Charity. Við æfðum Kata-dansrútínu til að dansa fyrir kanadísku Megan daginn eftir því þá yrði hún 29 ára. Við dilluðum rössum og sveifluðum mjöðmum og eftir það dansdeit urðum við skrefinu nær því að verða ekta afríkanar. Um kvöldið kenndum við Marloes og Sam rútínuna okkar fyrir daginn eftir og fórum svo að sofa í fyrra fallinu.

Daginn eftir vöknuðum við og fórum í morgunmat og við Nicola, Sam og Marloes hittum Charity í smá morgundansæfingu. Við brutumst svo út í Kata og Kamares dans fyrir Megan, áður en við stigum upp í rútu, undir afrískum trommuslætti. Hún var ýkt hissa og mega ánægð. Við Marloes, Mary-Ann, Reineke og breska Megan héldum svo í BOC þar sem var málað eins og enginn væri morgundagurinn. Eric og Grace komu um ellefu leytið og hjálpuðu okkur smá en stoppuðu ekki lengi. Eric talaði við kennarana og krakkana og gaf mér góð meðmæli og klapp á bakið. Við máluðum þar til við vorum sóttar um hálf fjögur. Þegar við vorum komnar upp í Bracken fór ég inn á skrifstofu og fékk að lesa Michael-sponser-upplýsingar í tölvunni hennar Maureen sem hún hafði sent mér en ég gat ekki opnað í giftshop-tölvunum. Á meðan ég var að lesa var Patrick að leika sér að prumpuplöðru sem einhver hafði gefið til African Impact og kenndi mér hvernig maður segir prump á swahili sem þeim finnst mega fyndið. Í matnum urðum við fyrir smá rafmagnstruflunum en sem betur fer var það þegar maturinn var tilbúinn. Eftir mat fór ég á netið og bloggði og sorteraði myndirnar mínar. Ég kom seint upp í hús aftur og fór beint að sofa.

Daginn eftir, eftir morgunmat og klikkaða hlaupæfingu hjá mér og Nicolu fórum við í The Feeding Program. Á leiðinni þangað bættum við við silly orðaforðann okkar í swahili og lærðum mavi (kúkur) og kunya (kúka), en við Nicola fengum að fara í litla bílinn með Maureen, Eric og Sammy því rútan var full og hin rútan í viðgerð. Ég gaf út steikingarfeiti í það skiptið, en þar sem við vorum svo margar vorum við bara með eitt djobb. Við tókum ekki nema einn og hálfann klukkutíma og við héldum þá aftur upp í Bracken í hádegismat þegar allir voru komnir með upp í kok á Pat Dixon. Þegar komið var upp í Bracken var kominn tími fyrir Reflection. Ég, Marloes og Nicola funduðum með Patrick og Eric á meðan restin fundaði með Charity. Við fórum yfir A Responsible Approach to Volunteering, part 2 bæklinginn sem við höfðum fengið daginn áður og töluðum um Mobilising internal resources before bringing in outsiders help og Avoiding paternalism og töluðum um hvernig það átti við í okkar verkefnum. Við borðuðum svo hádegismat með Eric, Patrick og Charity og spjölluðum um daginn og veginn. Eftir mat héldum við í Mukeu. Þar spjölluðum við og lékum við krakkana en þurftum að fara snemma því einn lítill strákur frá Mukeu, David, sem var inni á spítala vegna snúna þarma og við þurftum að keyra honum. Ég var pínu spæld að þurfa að fara svona snemma þar sem ég hafði saknað krakkanna í Mukeu sárt og myndi ekki fá að sjá þau aftur, en það er erfitt að láta veikt barn bíða. Við fórum í það skutl og svo aftur heim í Bracken. Um kvöldið sátum við bara inni í stofu og spjölluðum og skrifuðum og lásum. Þegar allir voru farnir að sofa sátum við Nicola eftir og spjölluðum um lífið og tilveruna og nýju sjálfboðaliðana.

Daginn eftir var byrjað á því að skutla mér, Marloes og Maureen í Limuru og svo skutlað rest í verkefnin. Á meðan ég og Marloes fórum að prenta út myndir fór Maureen að leita að vatnstanki sem við ætluðum að kaupa fyrir mömmu Michaels, og prútta hann niður. Við hittum svo Maureen og hún fór með okkur í búðina til að borga. Svo komu Charity og Benard og skutluðu Marloes í BOC þar sem það var hennar seinasti dagur þar. Við Maureen pöntuðum asna og kerru til að bera tankinn og fengum að sitja á kerrunni. Það var ekki einn haus sem starði ekki á mig þegar við fórum í gengum Limuru, því af einhverri ástæðu sjá menn ekki hvíta manneskju á asna á hverjum degi. Við komum við í BOC til að sækja Michael og fórum svo heim til hans og gáfum Jane tankinn. Hún var mega ánægð og þakkaði mér og blessaði mig bak og fyrir. Við fórum svo aftur í BOC á asnanum og sungum og dönsuðum í PP1 með öllum eins og gert er á fimmtudögum þangað til komið var að hádegismat. Af því að þetta var síðasti BOC dagur Marloes var eldað chapatis í staðinn fyrir ugali. Við átum yfir okkur og fórum svo aftur í PP1 því þar voru veitt verðlaun fyrir þá nemendur sem höfðu staðið sig best í miðannarprófunum. Þegar það var búið fóru allir heim í miðannarfrí sem var alveg þangað til eftir helgi. Við vorum sóttar um rúmlega þrjú og fórum svo í Mukeu að sækja þær sem voru þar. Við vorum svo seint á ferðinni að við komumst ekki í swahilitíma. Þegar ég var komin upp í hús var ég svo þreytt að ég sofnaði aðeins í tvo tíma áður en við fórum í mat. Um kvöldið spiluðum við Sam, Nicola og Fer Uno sem við höfðum grafið upp í dótaskápnum í hinu húsinu. Ég skrifaði svo í dagbókina mína og kommst hvorki meira né minna en bara tveimur og hálfum degi á undan.

Á föstudeginum vorum við komnar niður á skrifstofu kl. átta eins og venjulega á föstudögum og heldum í The Slums. Við fórum í Catholine skólann í The Mukuru Slums eins og við Marloes höfðum gert fyrstu vikuna okkar, bara tíu sjálfboðaliðum fleiri. Þar var okkur skipt niður í kennslustofur í smá stund og fórum svo með öllum niður á völl og lékum okkur þar. Benard beið svo eftir okkur í rútunni um hálf eitt og fór með okkur í Village Market. Ég fékk mér kjúklingasalat og súkkulaðiís í eftirrétt. Við Nicola og Sam fórum svo í leggingsleit en fundum engar og fórum svo í Nakumatt og fundum afmælisköku handa Mary-Ann. Við röltum svo um masai-markaðinn í klukkutíma. Ég var nokkuð stolt af mér eftir þann hringtúr þar sem ég keypti aðeins eina tösku og eyrnalokka og prúttaði niður hægri, vinstri fyrir stelpurnar. Við héldum þá aftur upp í Bracken. Þegar þangað var komið var gellan út giftshoppinu komin til að gera fléttur í Marloes. Ég fór í Hey-skoðum-allt-draslið-sem-við-höfum-keypt-síðastliðnar-átta-vikurnar-partí til Nicolu og Sam og áttaði mig á því að ég hafði keypt aaallt of mikið af random drasli sem átti aldrei eftir að passa í töskuna mína. Við fórum svo í mat og höfðum rólegt kvöld og spkölluðum bara og allir fóru snemma að sofa.

Daginn eftir fórum ég, Fer og Mary-Ann í Angels. Flestir höfðu farið upp Mount Longonott og nokkrir voru bara heima. Við hittum Patrick sem átti að skutla okkur, fyrir utan skrifstofuna, sofandi í framsætinu en hann hafði verið djammandi til kl. fimm um morguninn. Við spenntum beltin og héldum dauðahaldi í hvor aðra. Í Angels héldum við á börnunum og gáfum þeim að borða og þvoðum glugga. Patrick kom svo og sótti okkur um eitt leytið. Þegar við komum aftur upp í hús slengdum við okkur undir sólina og lágum eins og skötur. Þegar Mount Longonott liðið kom aftur var slegist um sturturnar þar sem allir vildu vera sætir fyrir kvöldið. Við Marloes, Nicola, Sam, Mary-Ann afmælisbarn, Reineke, Fer og Mark vorum sótt um rúmlega sjö og okkur var skutlað á veitingastaðinn Hugs í Limuru þar sem hittum Patrick, Eric og Benard og fengum ekta kenískann mat eins og ugali, mukimo, kachumbari og geit sem við borðuðum allt með höndunum. Við pöntuðum nokkra Tusker og létum Mary-Ann fá kökuna sem við höfðum keypt og hún blés á kertin. Við dönsuðum svo smá og við Fer sömdum geðveikt lag og bjugum til dans með. Við skiptum svo um stað og fórum á Memories Club þar sem fólk var rúllandi niður stiga hægri, vinstri þegar við komum inn. Þar dönsuðum við og fengum okkur nokkra drykki. Við lærðum nokkur moves af dansmeistaranum Patrick en voru aaallt of hvítar til að púlla þau off, en létum samt vaða. Þegar nóg var komið létum við gott heita og okkur var skutlað heim í Bracken.

Daginn eftir vöknuðum menn mishressir og við fórum nokkrar í morgunmat og splæstum í soramat í kaffisjoppunni. Á leiðinni í morgunmat mættum við nýju ensku stelpunum, Hannah og Abby. Þær voru í kynningarferð um svæðið með Eric. Ég keypti mér hollan og næringaríkan morgunmat upp á hamborgara og franskar en át ekki nema hálfan. Restin af deginum fór bara í leti og sólbað þangað til við fórum í kvöldmat. Eftir mat var kominn tími fyrir brottför hjá okkar heittelskuðu Marloes og Lisu. Við skældum og knúsuðumst og földum töskur og bíllykla en að lokum horfðum við á eftir þeim keyra burt. Ég kíkti svo aðeins á netið um kvöldið og sannfærði föður minn um að sækja mig á flugvöllinn þegar ég kæmi heim og og planaði svo afríkudeit með Ósk eftir heimkomuna. Ég rölti svo upp í hús og fór að sofa.

-----------------------

Þetta var vika átta í Kenýa. Þarna á ég bara fjóra daga eftir í afríkulandinu mínu heittelskaða og laaanga heimkomu. Eins og ég sagði er vika síðan ég kom til landsins núna, og eins og ég var búin að spá er ég með komin með miiikla heimþrá heim í sumarið núna. Ég er búin að borða yfir mig af súrmjólk, harðfisk, íslenskum pönnukökum og lifrapylsu eftir að ég kom heim, knúsa vini og fjölskyldu og dottin aftur í hversdagsleikann sem er Ísland en dreymir um að vera í landinu græna.Ég vona að ég fái að fara aftur heim ..bráðum.
Bless í bili.

Kær kveðja,Sigríður Ólafsdóttir

 

IMG_3776
Kata og Kamares dansinn

Sigga 1 (1341)
Ég og Njoroki í huggulegheitum í Angels

Sigga 1 (1353)
Marloes og Wombui

Sigga 1 (1359)
Ég berandi töskuna handa teacher Margaret, african style!

Sigga 1 (1380)
Gillian, Sam, Marloes, Teacher Margaret, Nicola, Megan og ég fyrir utan kirkjuna

Sigga 1 (1367) 
Teacher Margaret, Nicola, Megan, ég, Sam, Marloes, Benson gerum okkur tilbúin undir kræsingarnar

Sigga 1 (1419)
Ég og Michael

Sigga 1 (1436)
Ég og vinir mínir í PP3, Shandrack, Michael, Vivian, Kenneth og Simon

Sigga 1 (1450)
Carmen, Patrick, Sigga, Charity, Marloes, Eric

Sigga 1 (1465)
Við öll í The Feeding Program

Sigga 1 (1548)
Ég og Janet í Mukeu

Sigga 1 (1582)
Við Maureen eins og fagmenn á ösnunum

Sigga 1 (1587)
Ég, Michael og vatnstankurinn

Sigga 1 (1589)
Mega fjör á ösnunum

Sigga 1 (1603)
Ég var allt annað en góð í hollinn skollinn

DSC07917
Hópmynd fyrir utan skrifstofurnar

DSC07946 
Ég og Yvonne vorum bara rólegar í The Slums og horfðum á hina í fótbolta.

IMG_0179 
Mega stuð hjá mér og David í Angels

IMG_0192
Wombui, Martin, David og Joy í Angels

DSC08035 
Við Sam og Marloes tilbúnar í fjörið það laugardagskvöld

IMG_0228
Geit, ugali, mukimo, kartöflur, franskar. YUM!

DSC08038 
Ég hélt mig í mukimoinu sem er eitt af því besta sem ég fæ

DSC08076 
Hópmynd í lok kvölds. Allir mega hressir!


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband