Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Þessi sem var skrifuð í Reykjavík..

Ókei, ég veit að ég er ekki farin til Afríku og að það er örugglega helmingi skemmtilegra að lesa blogg eftir fólk sem er að rokka í Afríku heldur en eftir lúða sem eru ekki einu sinni lagðir af stað. Ég vil nú samt meina að að vera komin í höfuðborgina alla leið frá Höfn í Hornafirði sé að vera lagður af stað (þó svo að ég væri hérna either way) þannig að here goes.

Við mæðgur lögðum af stað kl.9 um morguninn miðvikudaginn 29. (í gær) eins og planað var. Báðar höfðum við reyndar sofið frekar lítið, en ég fór ekki að sofa fyrr en um 5 um morguninn en þá var sú gamla að vakna og gat ekki sofnað aftur. Verandi eins og ég er, manneskjan sem gerir allt á síðustu stundu, og manneskjan sem ákveður að demba sér í smá lestur fyrir svefninn ..kl. 4 um nótt, var ég eins og geta má ekki hin hressasta kl. 07:30. Sú gamla var ekki sú hressasta heldur en bauð sig þó fram til að byrja að keyra. Ég lagði mig á meðan og vaknaði ekki fyrr en á Vík í Mýrdal þegar ég get ekki hunsað vælið í þeirri gömlu um að vilja skipta. Við skiptum á Bakka og ég keyri á Hvolfsvöll þar sem við tökum bensín og sú gamla löngu rotuð í farþegasætinu. Ég var ekki búin að vera lengi að dæla þegar að lögreglan sem var lögð fyrir aftan okkur byrjar að spjalla við mig. Hann spyr mig hvort ég sé eitthvað þreytt og hvaðan ég sé að koma. Ég reyni að halda ró minni og segist vera að koma frá Höfn í Hornafirði og ekkert vera þreytt (enda búin að sofa þó nokkuð á leiðinni). Þá segist hann vera búinn að fá símtöl um óæskilegann akstursmáta á þessum bíl síðan á Mýrunum (enda gamla búin að halda sig á 60-70 mestallan tímann og haldið sér vakandi við að hrökkva við þegar bíllinn var kominn óþarflega langt út í kant). Ég geri eins og hver annar 19 ára rokkari með sofandi foreldri með í bílnum sem heyrir ekki til hefði gert, kenni gömlu um allt. En róa svo löggukvikindið með því að segja að við séum nýbúnar að skipta og að ég skuli keyra samviskusamlega restina af leiðinni. Hann tekur það í sátt og fer í leit að fleiri ökuvitleysingum. Ég læt móður mína um samviskubitið og hækka í útvarpinu og byrja mína hefðbundnu tónleika í aksturssætinu sem fylgir hverri Reykjavíkurferð.
Sjö tímum frá Höfn (já ..sjö) rúlluðum við í bæinn og ég rúntaði með móður minni í smá erindargerðaferðir sem endaðu svo í Sólheimunum þar sem við lentum í svaka veislu hjá Gísla og Gunnu.
Ég lagði svo af stað í leiðangur til að finna Grandaveginn sem ég, svo ég segi sjálf frá, er orðin frekar klók í að finna, en reikna þó ennþá alltaf með smá tíma til að villast. Pabbi og Benna tóku vel á móti mér og faðir minn sagði mér allt frá glæpabransanum sem hann hefur, eins og fleiri, sogast inn í sem lýsir sér þannig að hlaða ólöglega inn kvikmyndum af netinu, þannig að ekki leið á löngu að ég var komin upp í rúm með tölvuna og flakkarana tvo leitandi í gegnum heiminn allann af kvikmyndum til að horfa á og endaði á lokum með Eat, Pray, Love með Juliu Roberts. Hún var bara allt í lagi ..fyrir chickflick, frekar langdregin reyndar en það gæti verið ferðaþreytan að tala ..samt ekki. Svo þegar hún var loksins búin var ég ekki lengi að rotast.

Ég tók 19-ára-manneskjan-sem-er-í-jólafríi-kvótann út í morgun og svaf til eitt um hádegi takk fyrir. En ég er líka manneskjan sem getur sofið endalaust þangað til ég er vakin, enda var það símahelvítið sem vakti mig. En ég hefði kannski heldur ekkert haft gott af meira en tólf tíma svefni, vilja einhverjir meina.
Ég sá bara engan tilgang í að fara eitthvað út úr húsi af viti eftir það þannig að við feðgin héldum okkur bara heima mest allan daginn og grömsuðum í eftirréttaruppskriftum og hökkuðum grænmeti til að henda í svínið og létum malla í ofninum næstu sex tímana. Um fimm leytið var ég svo fengin til að skutla gömlu hjónunum niðrí bæ sem þau ætluðu að mála rauðann. Ég fór sjálf að rokka á Laugarveginum en þangað þurfti ég að fara í Apótek til að ná í malaríulyf og kaupa mér sólarvörn. Ég kom svo við á Subway, Ártúnshöfða og fór þaðan út með stórann kalkúnabringubát og pepsi max með hugann við jólakonfektið heima. Ég skellti mér svo bara upp í rúm/sófa með kræsingarnar og byrjaði þar heljarinnar kvikmyndamaraþon. Ég vil samt meina að ég hafi rokkað veröld Reykjavíkurborgar eins og enginn hefur áður gert. Malaríulyf, Subway, Quality Street og Angelina Jolie. Hver kæmi ekki í það partý???
Ég byrjaði sem sagt á því að horfa á Salt með Angelinu Jolie, sem mér fannst byrja mjög vel en fara samt aðeins of mikið í það að reyna að blekkja hugann og spila of mikið hver er vondur, hver er góður leikinn sem getur verið helvtíti góður ..í hófi. En hún endaði samt alveg ágætlega fannst mér.
Svo horfði ég á The Killers með Ashton Kutcher og Katherine Heigl. Hún fannst mér ekkert spes, en ég veit ekki, kannski bjóst maður ekkert við meiru. Þetta er allavegana mynd sem maður á ekki að horfa á á eftir Salt. Hoho. Ég verð samt að segja að ég fýla Ashton Kutcher betur í gæinn sem drepur fólk hlutverkinu heldur en ástsjúki blómasalinn eða hvað sem það er sem hann er vanur að leika, annars hef ég aldrei beint tekið karlgreyið eitthvað alvarlega sem leikara, en það er jú ekkert leiðinlegt að horfa á hann. Ég veit ég er lame þegar ég sýni mínar kvenlegu hliðar, en þær eru víst þarna einhversstaðar. En ég hef samt alltaf verið hrifin af Katherine Heigl frá því hún lék í Knocked Up sem er án efa mjööög ofarlega á mínum uppáhalds-kvikmyndir-lista, sama hversu mörgum lame-ass-þarft-ekki-einu-sinni-að-horfá-á-myndina-ef-þú-hefur-séð-trailerinn-chickflicks sem hún hefur leikið í.
Svo byrjaði ég að horfa á How To Train Your Dragon sem ég hef heyrt að sé mjög skemmtileg, en ég stoppaði hana eftir nokkrar mínútur til að kíkja aðeins á netið og pota aðeins í þessa bloggsíðu. Svo leið ekki á löngu þar til gömlu hjónin komu heim, mun "hressari" en þegar þau fóru og ég þurfti að stoppa bloggið og signa mig út af facebook því við feðgin vorum að fara á trúnó eins og sá gamli kallaði það sjálfur. Ekki leiðinlegt það. Núna eru þau gömlu bæði farin að hrjóta og ég ætla að klára myndina mína þó svo að klukkan sé að verða tvö í þessari tölvu (en sem betur fer er hún stillt á norskan tíma en undrunarsvipurinn á andlitinu á mér klikkar þó ekki í hvert skipti sem ég lít á hana).

For now, góða nótt kæru vinir og eftir 23 klukkutíma, Gleðilegt nýtt ár! (ef viðkomandi aðili er staddur á Íslandi).

Kær kveðja
Sigríður Ólafsdóttir


Þessi sem var skrifuð heima..

Nú sit ég heima við eldhúsborðið á Sandbakkaveginum klukkan tvær mínútur yfir eitt að nóttu, daginn áður en lagt er af stað í ferðalagið ógurlega.

Í dag er 28. desember (tæknilega 29.) og á morgun ætlum við mæðgur að leggja land undir fót og keyra til Reykjavíkur þar sem við ætlum að eyða áramótunum. Ég ætla að rokka hjá ömmu Siggu á Grænlandsleiðinni þetta gamlárskvöld eins og ég hef gert í gegnum árin. Svo verður haldið í nýársveislu hjá Gísla frænda í Sólheimunum daginn eftir. Svo örla morguns þann 2.janúar á splunkunýju ári verður mér hent til Keflavíkur þar sem ég mun fljúga til London kl.08:30 (ef ekkert bregst) og bíða þar í ekki nema sjö klukkutíma og fljúga svo þaðan til Nairobi í Kenya, en þar lendi ég kl.06:30 að staðartíma. Ekki nema 21 tíma ferðalag, ef ekkert bregst (sjö, níu, þrettán). Í Nairobi bíður svo eftir mér einhver félagi með skilti með African Impact logoi og nafninu mínu sem keyrir með mig til Limuru, sem á að vera einn eða einn og hálfur klukkutími á leið, fer eftir traffík.

Í dag er ég búin að fara á bókasafnið og fá að prenta út flugmiðana mína og ljósrita vegabréfið mitt og bólusetningarskráningabókina mína. 
Svo fór ég í bankann og tók út nokkra bandaríska dollara, en til gamans má geta að í veskinu mínu eru nú krónur, dollarar og tyrkneskar lírur (sem hafa þar verið síðan í útskriftarferðinni til Tyrklands í maí).
Svo plöggaði ég lyfseðil fyrir malaríulyfjum sem ég á víst að sækja í Reykjavík. Hverjum hefði grunað að Hornfirðingar hafa ekki miklar áhyggjur á að fá malaríu, og þess vegna apótekið hér tómt í þeirri deild?
Svo fórum við í leftover hangikjöt til ömmu sem bauð okkur í mat því ískápurinn á Sandbakkaveginum er svo gott sem tómur en þar búa ekki nema tvær þrjóskar mæðgur sem vilja ekki koma heim um miðjan febrúar með ískáp fullan af súru gumsi og hafa því ekki farið í búð síðan á þorláksmessu.
Svo byrjaði ég að henda í tösku (já, ég er gæinn sem gerir það aldrei fyrr en daginn áður) og reddaði svo jólagjöfum þeirra sem voru svo óheppnir að lenda í jólaskrímslinu mér sem var hatin' á jólin þangað til á aðfangadag og ákvað þess vegna að henda bara nokkrum áramótagjöfum í þá Reykvíkinga sem geta bara sjálfum sér um kennt að búa svona langt í burtu.
Svo kvaddi ég vinkonur mínar með tárin í augunum þótt ég verði bara í burtu í sex, sjö vikur, sem gæti alveg eins verið sex, sjö ár fyrir fólk sem hangir saman allan daginn, alla daga (þökkum guði fyrir vini í atvinnuleysinu).

Ég kunni ekki við að blogga ekki áður en ég færi af stað þannig að eins áhugaverð og þessi færsla var, fékk hún að vera sú fyrsta. Ég hefði ekki verið svona lengi með hana ef það hefði ekki verið fyrir einhvern klikkaðann kött sem finnst svona líka gaman að bíta í borðana á jólagjöfunum sem liggja hér út um allt eldhúsborð og ákveður svo alltaf að leggjast beint milli mín og tölvunnar eða bara beint ofan á lyklaborðið.

Ég vona að ég nái að henda eitthverju hér inn meðan á dvölinni stendur. En ég er samt alltaf gæinn með ferðadagbókina sem skrifar á hverjum degi allt sem gerist þegar ég fer til útlanda þannig að ef það kemur ekki jafnóðum inn á netið, þá er það allt skrifað einhversstaðar og verður hent inn þegar ég kem heim. Lofa.

Þá er það bara sturta, sofa, vakna, Reykjavík.
Þangað til næst, hvenær sem það verður.

Sigríður Ólafsdóttir


P.S. Ég vil minna á aðrar síður sem ég á sem gætu fengið eitthverja athygli ef þessi fær enga.

www.facebook.com/1wayticket2iceland
www.twitter.com/1wayticket2ICE
www.dailybooth.com/1wayticket2iceland

Rock on.

Picture_011[1]

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband